2012


Unnur Ösp Stefánsdóttir


Unnur Ösp útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2002 og hefur síðan þá starfað við leikhús og kvikmyndir, sem framleiðandi, leikari og leikstjóri. Hún framleiddi og leikstýrði kvikmyndinni Reykjavík Guesthouse-rent a bike, leikstýrði dansmyndinni While the Cats Away og var höfundur og leikari í heimildarleikhúsverkinu Venjuleg kona? sem sýnt var í Nýlistasafninu. Hún leikstýrði Fólkinu í blokkinni og söngleiknum Footloose í Borgarleikhúsinu. Unnur Ösp er nú fastráðin leikkona við Borgarleikhúsið. Hún hefur leikið ýmis hlutverk bæði í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, hjá Vesturporti, Sjálfstæðu leikhúsunum og í kvikmyndum. Í Borgarleikhúsinu má nefna Nawal í Eldhafi, Donnu McAuliffe í Elsku barn, Gretu í Faust, Rannveigu í Nei, ráðherra, Johnnu í Fjölskyldunni, Heiðrúnu í Dúfunum og Rizzo í Grease.
Í Þjóðleikhúsinu lék Unnur í sýningunum Klaufar og kóngsdætur, Edith Piaf, Halldór í Hollywood og Eldhús eftir máli. Önnur hlutverk Unnar eru m.a. Vigdís í sjónvarpsseríunni Rétti, Laufey í kvikmyndinni Dís, Dionne í söngleiknum Hárinu, Unnur Ösp í 5 stelpur.com, Greta í Hamskiptunum, Lavinia í Titus, Dottie í Killer Joe og Sara í Herra Kolbert. Unnur vann Grímuna sem besta leikkona í aðalhlutverki 2011 fyrir hlutverk sitt sem Donna McAuliffe í Elsku barn, var tilnefnd til Grímunnar sem besta aðalleikkonan sem Dottie í Killer Joe og Nawal í Eldhafi. Eins hlaut hún tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta íslands fyrir verk sitt Venjuleg kona?-heimildaleikhús. Unnur er nú verndari UN WOMEN á Íslandi.