2007



Ljósmynd: Halldóra Sigríður

Kristbjörg Kjeld


     Kristbjörg Kjeld útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1958. Sama ár lék hún titilhlutverkið í Dagbók Önnu Frank í Þjóðleikhúsinu þar sem hún hefur starfað alla tíð síðan. Af stærstu hlutverkum hennar má nefna Alison í Horfðu reiður um öxl Osbornes, Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti Kambans, Barblin í Andorra Max Frisch, Steinunni í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar, Normu í Oss morðingjum Guðmundar Kambans, Steinunni í Svartfugli Gunnars Gunnarssonar, titilhlutverkið í Maríu Stúart Schillers, Góneríl í Lé konungi Shakespeares, Ingunni í Stundarfriði Guðmundar Steinssonar, eiginmanns hennar, og Evu í Garðveislu sama skálds, Vernhörðu í Heimili Vernhörðu Alba Garcia Lorca, Möllu í Taktu lagið, Lóa eftir Jim Cartwright, frú Ólfer í Strompleik Halldórs Laxness og Lilju í Græna landinu eftir Ólaf Hauk Símonarson.  Hún fór einnig með stór hlutverk í kvikmyndunum 79 af stöðinni, Kristnihald undir Jökli, Hafinu, Kaldaljósi og Mömmu Gógó. Þá hefur Kristbjörg nokkuð fengist við leikstjórn, bæði hjá Grímu, Alþýðuleikhúsinu og í Þjóðleikhúsinu.