2006


Gretar Reynisson


     Gretar Reynisson  lauk myndlistarnámi frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og stundaði framhaldsnám í Amsterdam 1978-79. Hann hefur haldið um tuttugu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Gretar hóf feril sinn sem leikmyndahöfundur árið 1980 og hefur gert fjölda leikmynda í flestum leikhúsum landsins: Alþýðuleikhúsinu, Nemendaleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Meðal sýninga sem hann hefur gert leikmyndir við eru Gísl Brendans Behan, Draumleikur Strindbergs, Villiönd Ibsens, Anna Karenina Tolstojs, Krítarhringurinn í Kákasus eftir Brecht, Antígóna Sófóklesar, Þetta er allt að koma Hallgríms Helgasonar og Ívanov Tsjekhovs. Hann hefur einnig gert leikmyndir við sýningar byggðar á leikritum Shakespeares: Óþelló, Macbeth, Draumi á Jónsmessunótt, Hamlet, Sem yður þóknast og Lé konungi. Þá hefur Gretar oft tekið þátt í að vinna handrit og semja leikgerðir fyrir þær sýningar sem hann hefur gert leikmyndir við.