Styrkveiting árið 2014



Sambýliskona Ólafs Darra Ólafssonar leikara, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir,
Sunna Borg, sem sæti á í stjórn Stefaníusjóðsins
og leikkonan Kristín Þóra Haraldsdóttir
að lokinni styrkveitingu í Borgarleikhúsinu 20. október 2014.
Þetta er í 23. skipti sem afhending fer fram og nú eru styrkþegar 43 talsins.

Þann 20. október 2014 fór fram hin árlega úthlutun styrkja úr sjóðnum við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu að viðstöddum mörgum góðum gestum.

Stefanía Borg formaður sjóðsins bauð gesti velkomna og rifjaði upp tildrögin að stofnun sjóðsins, sögu hans og markmið.

Sunna Borg, systir hennar og meðstjórnandi sjóðsins annaðist úthlutunina og fór fögrum orðum um styrkþega og Þorsteinn S. Ásmundsson framkvæmdastjóri Borgarleikhússins ávarpaði gesti og fór yfir sögu Leikfélagsins frá upphafi.

Stjórn minningarsjóðsins hafði samþykkt einróma að heiðra leikarana Ólaf Darra Ólafsson og Kristínu Þóru Haraldsdóttur að þessu sinni.

Þau hlutu fjárstyrk að upphæð kr. 750.000 hvort fyrir sig og “Stefaníustjakann” sem viðurkenningu fyrir frábæran árangur á sviði leiklistar. Þau Ólafur og Kristín eru meðal 43 leikara, svokallaðra Stefaníubarna, sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum frá árinu 1970.

Markmið sjóðsins er að heiðra og styrkja leikkonur og leikara til framhaldsnáms, eða námsferða erlendis, til frekari þroska á listabrautinni.

“Þótt aðstæður í þjóðfélaginu hafi gjörbreyst frá því að hugmyndin að stofnun sjóðsins fæddist árið 1938 þá hefur mannlegi þátturinn, eðli mannsins, ekkert breyst, við höfum öll þörf fyrir stuðning og viðurkenningu”, sagði Stefanía Borg við athöfnina. Kristín Þóra sagði styrkveitinguna vera mikinn heiður. “Mér þykir rosalega vænt um þetta og fyllist mikilli auðmýkt og þakklæti.”

Ólafur Darri sendi samkomunni kveðju þar sem hann gat ekki verið viðstaddur afhendinguna.

“Mig langar til að þakka þann heiður sem mér er sýndur með þessari styrkveitingu. Því miður get ég ekki veitt styrknum viðtöku í eigin persónu, ég er staddur í Bandaríkjunum við upptökur á kvikmynd og vegna breytinga á tökuplani þá er Lovísa, konan mín, hér í minn stað. Og þar sem hún er töluvert laglegri en ég og lyktar mun betur þá held ég að þið séuð sammála mér um að það séu ekki vond skipti.

Það er ómetanlegt að fá klapp á bakið og fá að vera hluti af hópi þeirra frábæru listamanna, sem hlotið hafa Stefaníustjakann og styrkinn á undan mér. Vinnan okkar er forréttindavinna, hún er erfið og krefst mikils, ef maður ætlar að vinna hana vel, en launar manni með eilítilli innsýn í hvað það er að vera manneskja.
 Það er svo sannarlega þess virði.

Með hjartans þökk, Ólafur Darri.”