Stefanía Guðmundsdóttir



Stefanía Guðmundsdóttir

     Stefanía Guðmundsdóttir var í senn fremsta leikkona Íslands um sína daga og einn helsti burðarás Leikfélags Reykjavíkur. Í vitund samtíðarinnar var hún skærasta leikstjarna sviðsins í Iðnó, en hún var ekki aðeins stærsta „primadonnan“ - svo notað sé orð með heldur neikvæðum blæ - heldur mesti fagmaður leikhússins. Stefanía var vissulega „stjörnuleikari“, en það skiptir litlu hjá því að hún varð í reynd fremsti brauðryðjandi faglegra vinnubragða meðal sinnar kynslóðar. Og hún vísaði veginn í ýmsum öðrum efnum, t.d. reyndi hún að efla hér vísi að listdansi, stóð fyrir fyrstu barnasýningunni og fór í miklar leikferðir bæði innanlands og til Vesturheims. Á allra síðustu árum sínum, þegar ljóst var að leikflokkurinn við Tjörnina þyrfti á endurnýjun að halda, ætti hann ekki að lognast út af, reyndi hún að veita ungum leikurum tilsögn, þó að um mjög formlegt skólahald yrði ekki að ræða. Það kom í hlut næstu kynslóðar leikhússins að koma því á fót.

     Stefanía lauk aldrei leikaraprófi frá viðurkenndri stofnun og vitaskuld gat hún ekki haft lifibrauð af listinni frekar en félagar hennar í Leikfélagi Reykjavíkur; að því leyti var hún ekki atvinnumaður í þeim skilningi sem við leggjum í orðið. Miðað við allar aðstæður steig hún þó eins langt skref í þá átt og frekast var unnt. Það er vandséð hvernig hægt hefði verið að nýta betur en hún gerði þá möguleika til listræns þroska og framfara sem henni og kynslóð hennar stóðu til boða.

     Stefanía var fædd í Reykjavík en fluttist ung með foreldrum sínum til Seyðisfjarðar þar sem hún ólst upp fyrstu árin. Hún missti móður sína sex ára og fáeinum árum síðar hélt faðir hennar til Vesturheims ásamt eina bróður hennar. Sjálf varð Stefanía eftir á Íslandi og ólst upp hjá náfrænku sinni og fóstru, Sólveigu Guðlaugsdóttur. Þær fluttu aftur til Reykjavíkur árið 1890, þar sem Sólveig hóf rekstur matsölu á heimili sínu í Tjarnargötu 3. Stefanía giftist Borgþóri Jósefssyni árið 1896. Hann var þá verslunarmaður, en varð síðar bæjargjaldkeri Reykjavíkur. Þau eignuðust sjö börn og komust sex þeirra til fullorðinsára. Stóð heimili þeirra lengst á Laufásvegi 5, í stóru, virðulegu steinhúsi sem enn stendur. Eftir þeirra dag bjuggu afkomendur þeirra þar í áratugi.

     Borgþór Jósefsson var áhugasamur leikhúsmaður og starfaði lengi sem sviðsstjóri í Iðnó. Honum var mjög annt um að kona hans hefði sem bestar aðstæður til að sinna list sinni. Það skipti máli á þessum tíma, þegar staða konunnar var fyrst og fremst á heimilinu og skyldur hennar gagnvart því urðu að ganga fyrir öllu öðru. En Borgþór var stoltur af sinni frú og taldi ekki eftir sér að færa ýmsar fórnir, ef því var að skipta. Heimilishaldið kom að miklu leyti í hlut Sólveigar, frænku hennar, sem bjó á heimilinu til dánardags. Borgþór skildi einnig nauðsyn þess að Stefanía fengi tækifæri til að kynnast list bestu leikara erlendis. Veturinn 1904 – 05 dvaldist hún í Kaupmannahöfn til að fylgjast með leiklistarnámi í skóla Kgl. leikhússins og kynna sér leikhúslíf borgarinnar. Það hefði hún aldrei getað gert, hefðu maður hennar og fjölskylda ekki staðið heilshugar við bak hennar. Enginn vafi er á því að sú dvöl varð henni mjög til góðs og víkkaði sjóndeildarhring hennar, herti á kröfum hennar og viðmiðunum. Hún tjáði sig ekki oft um list sína, allra síst opinberlega, en í bréfunum, sem hún ritaði heim þennan vetur, leynir sér ekki að hún er bæði hrifnæm og dómhörð, og liggur hvergi á skoðunum sínum. Stefanía var jafnan hrein og bein, jafnframt því sem hún var nærgætin og varfærin, og hún kunni að beita lagni og jafnvel slægvisku til að hafa sitt fram. Það sýndi hún bæði á heimili og á vinnustað.

     Stefanía Guðmundsdóttir var aðeins seytján ára gömul þegar hún kom í fyrsta skipti fram á sviðinu í góðtemplarahúsinu í Reykjavík, Gúttó. Það var 30. janúar 1893. Þá lék Friðfinnur Guðjónsson reyndar einnig í fyrsta skipti á reykvísku sviði, en hann átti eftir að standa með Stefaníu á sviðinu langa ævi og varð á efri árum ein helsta gamanleikstjarna Reykjavíkur. En á þessum árum stóð ljóminn af Stefaníu. Leikur hennar vakti þegar mikla athygli og hafði ritstjóri Ísafoldar orð á því í blaði sínu að meinlegt væri, ef tilsagnarleysið yrði til að drepa niður slíka hæfileika. Skyndilega er eins og menn vakni til vitundar um að eitthvað sé í vændum á leiksviðinu; eitthvað sem vísi veginn fram á við og mönnum beri að hlúa að og rækta.

     Næstu ár lék Stefanía á hverjum vetri. Líf og fjör, glettni og glaðværð, einkenndu leik hennar á þessu tímabili og það svo að lengi efuðust margir um að hún myndi ráða við alvarlegri hlutverk. Það var nóg af góðum rullum „ærsladrósanna“ handa henni í þeim dönsku einþáttungum og söngvaleikjum sem voru uppáhald reykvískra áhorfenda undir lok nítjándu aldar. Sjálf hafði hún alltaf efasemdir um getu sína til þess að leggja undir sig ný svið í listinni; sjálfsgagnrýni skorti hana ekki og hún var sem fyrr segir gætin að eðlisfari. En þegar tækifærið bauðst sýndi hún og sannaði að öll vantrú var ástæðulaus. Hún var einn af stofnendum L.R. og á sviðinu í Iðnó skóp hún eftirminnilegar persónur í mörgum stærstu verkunum: fyrst var það Magda í Heimilinu eftir þýska skáldið Hermann Sudermann (1902), síðan kom Nóra í Brúðuheimili Ibsens (1905), Kamelíufrúin í samnefndum leik Dumas (1906), Gervaise í Gildru Zola (1906), Úlrikka í Kinnarhvolssystrum danska skáldsins Hauch (1910), Steinunn í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar (1914) og Hekla í Konungsglímu Guðmundar Kambans (1918), svo að þær helstu séu nefndar. Síðasti leiksigur hennar var titilhlutverkið í frönsku melódrama Frú X eftir Alexandre Bisson árið 1922. Jafnframt hélt hún áfram að leika „ærsladrósir“ þær sem unnu fyrst hugi og hjörtu, Reykvíkinga á litla sviðinu í Gúttó, ugglaust lengur en heppilegt var.

     Í hverju voru töfrar Stefaníu og yfirburðir sem leikkonu fólgnir? Í ræðu sem einn af aðdáendum hennar, Klemenz Jónsson landritari, hélt á 25 ára leikafmæli hennar árið 1918 taldi hann hana einkum bera af fyrir þrennt: hún kynni alltaf hlutverkin sín, framsögn og textameðferð væru ævinlega mjög skýr og svo gæti hún leikið bæði alvarleg hlutverk og gamansöm. Allt eru þetta nokkuð sjálfsagðir hlutir í okkar augum. En þeir voru það ekki þá. Var hún þá e.t.v. aðeins stórlistamaður á staðbundinn mælikvarða eða tímabundinn? Einhver kynni og að benda á hlutverkin sem hún lék og náði hæst í að dómi samtíðarinnar; þau voru flest í melódramatískum verkum sem nú eru löngu gleymd. Persónur hennar hlutu að verða fremur einfaldar í sniðum og flestar voru þær þakklátar, eins og stundum er sagt; áttu samúð áhorfenda vísa. Hún lék ekki margar grimmlyndar, hjartakaldar konur og það var ekki í leikritum Ibsens, Strindbergs og Tsjekhovs, hvað þá Shakespeares eða Grikkjanna, sem hún vann sigrana.

     Af þessu má þó ekki draga of víðtækar ályktanir. Í fyrsta lagi verðum við að muna að flestir mótleikenda hennar voru áhugamenn, margir algerir viðvaningar og aðeins að þessu til að skemmta sér í góðum félagsskap; sumir gengust kannski fyrir þessum fáu krónum sem þeir fengu fyrir vikið. Meðal karlanna voru það tæpast aðrir en þeir Jens B. Waage og Árni Eiríksson, sem eitthvað gátu til jafns við hana, og í kvennahópnum Guðrún Indriðadóttir ein. Ef samleikur átti að eiga sér stað, gat það einungis orðið á milli þessara einstaklinga og fáeinna annarra. Leikendaflokkur L.R. var þá og löngum síðar mjög óstöðugur, eins og oftast er í áhugamannaleikhúsum. Það var vonlaust að ætla sér að sýna verk eftir höfuðskáldin með slíkum kröftum. Þegar menn hættu sér í skáld á borð við Ibsen eða Schiller var árangurinn oftast eftir því.

     Í öðru lagi má ekki líta framhjá því að sú persónusköpun Stefaníu, sem flestum varð minnisstæðust, Úlrikka í Kinnarhvolssystrum, var engin hjálparvana kvenhetja, líkt og t.d. Magda og Kamelíufrúin. Þær síðarnefndu eru sýndar sem fórnarlömb harðsvíraðs feðraveldis og karlrembu, en Úlrikka er ágirndin holdi klædd. Þetta sýnir að Stefanía gat vel lýst persónum með neikvæðum skapgerðareinkennum, persónum sem hún samsamaði sig ekki nema upp að vissu marki, heldur hélt í skýrri fjarlægð. Úlrikku lék hún fyrst árið 1910 og síðan hvað eftir annað, á Akureyri og í Vesturheimi, og síðast veturinn 1921-22 í Iðnó. Þó að okkur skorti beinar sannanir eða heimildagögn fyrir því – leiklistargagnrýnin var ekki alltaf á hæsta stigi á frumbýlingsárum listarinnar – verður að teljast sennilegt að meðferð hennar á hlutverkinu hafi batnað á þessu árabili, myndin orðið skýrari, áhrifameiri, jafnvel dýpri.


Stefanía sem Steinunn í Galdra-Lofti

     Í þriðja lagi - og það hlýtur að vega þyngst - höfum við vitnisburð sumra fremstu leikhúsmanna Dana sem sáu hana leika. Einn þeirra, Adam Poulsen, efaðist ekki um að hún gæti átt góða framtíð á norrænu leiksviði, kysi hún að leggja út á þá braut. Hann talar um hana af mikilli hrifningu í endurminningum sínum og kveðst þar hafa lagt að henni að gera það. Hugmyndin var alls ekki eins fráleit og hún kynni að virðast nú; norræn menningarvitund var þá enn sterk og algengt að frægustu leikarar Norðmanna og Svía kæmu til Kaupmannahafnar og léku þar sem gestir; Johanne Dybwad, dáðasta leikkona Norðmanna, gerði þetta reglubundið árum saman. En Stefanía lét ekki freistast; hún átti fjölskyldu á Íslandi, mann og börn, en hún skildi einnig að hennar væri þörf í baráttunni fyrir íslensku þjóðleikhúsi – fyrir því höfum við orð Poulsens sjálfs. Stefanía var því engin sjálfhverf prímadonna; hún vissi hvers virði hún var, en hún sá líf sitt og starf í stærra, að ekki sé sagt æðra samhengi. Hún var hugsjónamaður líkt og margir af hennar kynslóð, og sá sem er það veit að hugsjónir eiga til að krefjast fórna.

     Eins og drepið var á hér í upphafi gerði Stefanía fleira í þágu íslenskrar leiklistar en að leika á sviðinu í Iðnó. Leikferðir hennar þrjár eru sérstakur kapítuli í sögu hennar. Sumurin 1915 og 1916 hélt hún til Akureyrar ásamt Óskari, syni sínum, sem þótti efnilegur leikari og var móður sinni jafnan mikil hjálparhella. Þar nyrðra sýndi þau Kinnarhvolssystur og fleira góðmeti, við frábærar undirtektir. Nú stóð svo á að leikstarf á Akureyri var í lægð eftir missi ýmissa burðarkrafta; sumir höfðu flust úr bænum, aðrir dáið, þar á meðal fremsta leikkonan, Margrét Valdimarsdóttir, sem nefnd hefur verið svar Norðurlands við Stefaníu Guðmundsdóttur. Margrét lést af barnsförum árið 1915, aðeins þrjátíu og fimm ára gömul. Heimsóknir Stefaníu orkuðu sem vítamínsprauta á leikáhugamenn bæjarins og áttu sinn þátt í því að Leikfélag Akureyrar, það sem enn starfar, var stofnað eða endurreist árið 1917. Haustið 1920 hélt hún svo vestur um haf, ásamt Óskari og dætrunum, Emilíu og Önnu, og var næsta árið að heita mátti linnulaust í leikferðum um Íslendingabyggðirnar í Kanada og Norður-Ameríku. Þar hitti hún aftur föður sinn og bróður sem hún hafði þá ekki séð hátt í fjörutíu ár. Þessar leiksýningar fjölskyldunnar vöktu mikla hrifningu og urðu eflaust til að treysta bönd Íslendinga við frændur og vini vestanhafs.

     Í ferðum sínum til Kaupmannahafnar hreifst Stefanía mjög af þeim ballettsýningum, sem hún sá þar. Ljóst er, að hún gerði sér far um að fylgjast með því sem var að gerast í evrópskum listdansi, eftir því sem hún hafði tök á. Hún stundaði nokkuð danskennslu, um tíma í samvinnu við Guðrúnu Indriðadóttur, sem var einnig mikil áhugakona um dansmennt. Stefanía skildi vel hversu hollt leikaranum það er líkamlega að vera góður dansari. Haustið 1914 varð hún fyrst til að dansa opinberlega tangó í Reykjavík en tangóinn fór þá sem eldur í sinu um vesturlönd. Ástríðufullir tilburðir hans og líkamleg nánd dansenda þótti mörgum fyrir utan allt velsæmi og gekk svo langt að sjálfur páfinn bannaði dansinn, en mælti í staðinn með því að fólk dansaði gamlan feneyskan dans sem var þá auðvitað uppnefndur „páfadansinn“. Stefanía dansaði páfadansinn reyndar líka í umræddri sýningu með Óskar son sinn sem dansherra. Nýjabragð þótti að vonum að þessu í hinni íhaldssömu Reykjavík, en einhverjir höfðu þó á orði að frúin hefði mátt vera ofurlítið villtari í dansinum. Líklega hefur það fremur verið yngra fólkið sem var þessarar skoðunar.

     Þegar Stefanía kom aftur heim úr Kanadadvöl sinni haustið 1921 var útlitið svart hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það hafði um skeið átt við mikla fjárhagserfiðleika að stríða, en fleira kom til, s.s. mannekla og skortur á ungum leikurum. Helstu karlleikararnir til margra ára, Árni Eiríksson, nánasti vinur Stefaníu og samherji í leikhúsinu, Kristján Ó. Þorgrímsson, gamanleikarinn sívinsæli, og Jens B. Waage, sjarmörinn mikli; þeir voru allir horfnir af sviði, Árni og Kristján dánir, en Jens að verða bankastjóri og hættur að leika. Það þótti ekki heppilegt fyrir menn í slíkum virðingarstöðum að hafa í frammi leikaraspil í augum samborgaranna. Sjálf gekk Stefanía ekki heil til skógar að lokinni vesturferðinni, læknar bönnuðu henni að stíga á sviðið fyrst um sinn.

     En eftir áramót var hún aftur orðin nógu brött til að geta farið að sinna leiklistinni, enda lá nú mikið við. Hún dustaði rykið af Kinnarhvolssystrum og síðar Ímyndunarveiki Moliéres, en í henni var eitt af vinsælustu hlutverkum hennar frá fyrri árum, vinnukonan ráðsnjalla Toinette. Í maí var Frú X frumsýnd. Augljóst er að þessar sýningar höfðu mikla leikhúspólitíska þýðingu. Ef L.R. hefði fellt niður starf sitt í einn vetur eru allar líkur á að það hefði með öllu lognast út af, og þá var næsta borin von að Alþingi hefði samþykkt lög þau um byggingu þjóðleikhúss sem það gerði vorið 1923. Leikhúsfólkið í Iðnó hafði sýnt og sannað menningarlegt gildi leikhússins. Það hafði ekki aðeins sýnt vinsæla gamanleiki, heldur einnig gert hinum nýju leikritum Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kambans boðleg skil; verkum sem nú báru hróður Íslands um öll Norðurlönd og jafnvel víðar. Allir hlutu að sjá hvers virði slíkt leikhús væri þjóð sem vildi láta taka sig alvarlega í samfélagi þjóðanna. Það vissi Stefanía flestum betur og nú uppskáru hún og félagar hennar laun erfiðis síns

     En fáir njóta eldanna sem kveikja þá fyrstir; það er gömul saga og ný. Sama ár og Þjóðleikhúslögin voru samþykkt stóð Stefanía Guðmundsdóttir í síðasta skipti á sviði. Heilsu hennar fór hrakandi og næstu ár stríddi hún við veikindi, þó að ekki muni hún hafa látið á þeim bera; sú var að minnsta kosti sögn sonar hennar, Geirs Borg. Hún vann leikhúsinu allt sem hún gat og veturinn 1924-25 gegndi hún formennsku í L.R. Haustið 1925 hélt hún til Kaupmannahafnar til lækninga og lagðist inn á Finsens-stofnunina þar sem hún lá næstu mánuði. Í janúarbyrjun gekkst hún undir erfiða aðgerð sem bar ekki tilætlaðan árangur og 16. janúar 1926 lést hún fjörutíu og níu ára gömul. Dóttir hennar, Anna Borg, sem þá hafði hafið leikaranám í Kaupmannahöfn sat við dánarbeð móður sinnar, ein af fjölskyldunni.

     Fjölskylda Stefaníu og Borgþórs átti eftir að setja mark sitt á reykvískt leikhkús næstu áratugi, þó að ekkert barna hennar yrði slíkt stórveldi sem hún var. Óskar, sem var mikill áhugamaður um leiklist og þótti efnilegur leikari, kvaddi sviðið fljótlega, enda fluttist hann nokkru síðar til Ísafjarðar með fjölskyldu sinni þar sem hann bjó í um áratug. Áður hafði hann lent í hatrömmum átökum við fjölskyldu Indriða Einarssonar um völdin í Leikfélaginu, átökum sem lyktaði með fullum sigri Indriða-fjölskyldunnar. Geta má þess að Óskar tók upp ættarnafnið Borg þegar hann fór út til náms í Danmörku og að systkinin tóku það öll eftir honum. Er nafnið að sjálfsögðu stytting á Borgþórsson eða –dóttir; Borg hljómaði heldur skár í dönskum eyrum.

     Erjur og leiðindi urðu ekki lokaþættir sögunnar. Um merkan feril Önnu er rætt hér annars staðar á síðunni og dæturnar Þóra og Emilía áttu báðar eftir að leika mikið með L.R., einkum Þóra, sem var m.a. í fyrsta leikarahópi Þjóðleikhússins. Þær höfðu minningu móður sinnar í miklum hávegum, svo miklum að mörgum þótti nóg um. Minning Stefaníu hlaut að ummyndast í glansmynd, þegar svona var á málum haldið, og það var ekki fyrr en sá sem skrifar þessi orð sendi frá sér tvær bækur um líf og list Stefaníu og samtíðarmanna hennar á árunum 1996 til 97 að reynt var að rýna í veruleikann að baki þeirrar myndar.

Jón Viðar Jónsson