1980


Stefán Baldursson


     Stefán Baldursson stundaði nám í leikhús- og kvikmyndafræðum við Stokkhólmsháskóla og lauk prófi þaðan árið 1971.  Hann starfaði um skeið við leiklistardeild Útvarpsins og vann jafnframt að gerð sjónvarpsþátta. Stefán tók snemma að starfa við leikstjórn og hefur stjórnað sýningum í flestum leikhúsum landsins.  Meðal verka sem hann hefur sett upp eru Góða sálin í Sezuan eftir Brecht, Grænjaxlar Péturs Gunnarssonar, Gísl Brendans Behans, Dagur vonar og Dínamít eftir Birgi Sigurðsson, söngleikurinn My fair Lady, leikrit Ibsens Villiöndin og Brúðuheimili og Veislan eftir Thomas Vinterberg og Mogens Rukov.  Þá hefur Stefán sett upp fjögur leikrit Guðmundar Steinssonar, öll í Þjóðleikhúsinu: Lúkas, Stundarfrið, Brúðarmyndina og Stakkaskipti.  Stefán var leikhússtjóri L.R. frá 1980 til 1987, fyrstu þrjú árin ásamt Þorsteini Gunnarssyni.  Þá hefur hann stjórnað fjölmörgum útvarpsleikritum og nokkrum sjónvarpsverkum, auk þess sem hann hefur leikstýrt í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Stefán var þjóðleikhússtjóri frá árinu 1991 til 2005 og er óperustjóri frá 2007.