1977


Þóra Friðriksdóttir


     Þóra Friðriksdóttir lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1954. Árið eftir vakti hún athygli fyrir túlkun sína á Billie Dawn í bandaríska gamanleiknum Fædd í gær í Þjóðleikhúsinu.  Á næstu árum lék Þóra ýmis hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu, Grímu og fleiri leikhópum, en árið 1965 var hún ráðin til Þjóðleikhússins þar sem hún starfaði alla tíð síðan.  Meðal helstu hlutverka hennar þar eru Alína Sólness í Sólness byggingameistara Ibsens, Jenny í Allt í garðinum eftir Edward Albee, Rauðsmýrarmaddaman í Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness, Blanche Dubois í Sporvagninn Girnd eftir Tennessee Williams, Matthildur í Syni skóarans og dóttur bakarans eftir Jökul Jakobsson og Mary Tyrone í Dagleiðin langa inn í nótt eftir Eugene O´Neill.  Þóra hefur einnig leikið mikið í útvarpi.