1979


Steinþór Sigurðsson


     Steinþór Sigurðsson leikmyndateiknari varð fyrstur leiklistarmanna utan leikarastéttarinnar til að hljóta styrk úr Minningasjóðnum. Steinþór var þá löngu kominn í röð fremstu leikmyndateiknara þjóðarinnar. Hann stundaði nám í Stokkhólmi á árunum 1951 til 1955, dvaldi á Spáni um hríð, en sneri sér eftir heimkomuna að kennslu og myndlist. Árið 1960 hóf hann að gera leikmyndir og búninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði síðan samfellt með félaginu í rúm fjörutíu ár. Leikmyndir Steinþórs vöktu snemma athygli og aðdáun og hlaut hann Silfurlampann, verðlaun leikdómara, árið 1972 fyrir leikmyndir sínar við Dómínó Jökuls Jakobssonar, Plóg og stjörnur eftir Sean O´Casey og Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar í leikgerð Sveins Einarssonar, en Silfurlampinn hafði fram að því ætíð fallið leikurum í skaut. Steinþór hefur einnig gert leikmyndir fyrir Grímu, Sumarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið og Íslensku óperuna. Jafnframt þessu hefur hann stundað myndlist og hannað fjölda sýninga.