2000


Hilmir Snær Guðnason


     Hilmir Snær Guðnason lauk námi við Leiklistarskóla Íslands árið 1994. Hann var þá strax ráðinn til Þjóðleikhússins og starfaði þar í mörg ár.  Síðustu ár hefur hann starfað hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Af stærstu hlutverkum hans í þessum leikhúsum má nefna Myshkin fursta í Fávita Dostojevskís, Davíð í Þreki og tárum eftir Ólaf Hauk Símonarson, Giovanni í Leitt hún skyldi vera skækja eftir John Ford, titilhlutverkin í Hamlet og Ríkharði III Shakespeares, Jónatan í Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren, Hippólítos í Fedru Racines, Kristján í Veislunni eftir Thomas Vinterberg, Salieri í Amadeus Peters Shaffers og Mefistófeles í Faust (samstarfsverkefni L.R. og Vesturports).  Hilmir Snær hefur einnig leikið í fjölda sýninga utan þessara leikhúsa og stór hlutverk í ýmsum kvikmyndum, þar á meðal Englum alheimsins, Myrkrahöfðingjanum, 101 Reykjavík og Brúðgumanum. Jafnframt hefur hann leikstýrt mörgum sýningum: í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku óperunni og víðar.