1977Ljósmynd: Halldóra Sigríður

Anna Kristín Arngrímsdóttir


     Anna Kristín Arngrímsdóttir stundaði nám við Leiklistarskóla LR og lauk þaðan prófi 1968. Hún starfaði í upphafi með Leikfélaginu og lék þar meðal annars Ástu í Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar og Láru í Kertalogi Jökuls Jakobssonar. Þá lék hún titilhlutverkið í sjónvarpsleik Jökuls Jakobssonar, Romm handa Rósalind, sem var fyrsta leikritið sem tekið var upp í stúdíói Sjónvarpsins.  Hún réðst til Þjóðleikhússins árið 1973 og hefur starfað þar síðan. Af veigameiri hlutverkum hennar má nefna Regan í Lé konungi Shakespeares, Lóu í Silfurtúnglinu eftir Halldór Laxness, Kassöndru í Óresteiu Æskýlosar, Lottu í Stórum og smáum eftir Botho Strauss og Jelenu í Kæru Jelenu. Af hlutverkum utan Þjóðleikhússins má nefna Maríu Callas í Master Class á sviði Íslensku óperunnar. Meðal hlutverka hennar við Þjóðleikhúsið á síðari árum eru frú Kapúlett í Rómeó og Júlíu Shakespeares, Írena í Mávi Tsjekhovs, frú Bastían í Kardemommubænum, Vilhelmína í Þreki og tárum Ólafs Hauks Símonarsonar, Evrídíka í Antígónu Sófóklesar, Jacqueline Picasso í Ástkonum Picassos eftir Brian McAnvera, Ella Rentheim í Jóni Gabríel Borkmann Ibsens og Helga Sigurðardóttir í Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson.