Styrkþegar leikárið 2017-2018



Við styrkveitingu 2017-2018

Hinn 1. júní 2018 fór fram afhending viðurkenninga úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur.

Athöfnin var að þessu sinni haldin í Tjarnarbíó að viðstöddum fjölda gesta.

Geir Borg formaður sjóðsins bauð gesti velkomna og fór yfir tilurð sjóðsins. Að lokinni tölu sýndi hann einstakt myndbrot úr kvikmyndinni De Gloge og vi gale þar sem hjónin og stofnendur sjóðsins þau Anna Borg og Poul Reumert léku sitthvort hlutverkið.

Hann bauð því næst Mörtu Nordal ritara sjóðsins að stíga á svið og afhenda væntanlegum styrkþegum Stefaníustjakann og styrkina.

Þeir listamenn sem hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni voru Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fyrir framúrskarandi framlag sitt á sviði leiklistar.

Steinunn og börn þeirra hjóna tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd þeirra beggja. Steinunn flutti stutta tölu og þakkaði kærlega fyrir þennan óvænta heiður fyrir hönd þeirra beggja. Stutt myndskeið voru sýnd úr leikferli þeirra beggja við mikla lukku gesta.

Eftir styrkafhendingu var boðið upp á léttvín og snittur á Tjarnarbarnum við undirleik pianóleikara.

Stjórn Stefaníusjóðs óskar styrkþekkum innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.