Úr sögu sjóðsins



Geir Borg

     Hér á eftir fylgir kafli úr ræðu sem Geir Borg, formaður sjóðsins, flutti við afhendingu úr minningarsjóðnum árið 2000. Það var í síðasta skipti sem Geir kom fram fyrir hönd sjóðsins. Hann hafði þá verið formaður frá því Þorsteinn Ö. Stephensen, fyrsti formaður sjóðsins, lét af því embætti.

     En hver var Geir Borg? Geir fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1912. Hann var yngsta barn hjónanna Stefaníu Guðmundsdóttur og Borgþórs Jósefssonar. Geir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1932 og prófi frá viðskiptadeild Kaupmannahafnarháskóla árið 1937. Skömmu eftir heimkomuna réðst hann til fyrirtækisins Kol & salt. Hann var forstjóri þess frá 1943 til 1967 og Saltsölunnar sf. frá 1968 til 1979. Geir var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Guðrún Ragnars, en síðari Bergljót Wathne. Með Guðrúnu eignaðist Geir fjögur börn: Kjartan, Stefaníu, Sunnu og Áslaugu; kjörsonur hans og Bergljótar er Ottó Geir. Geir Borg lést í Reykjavík 29. desember 2003.

     Því má bæta við þetta örstutta ágrip að Geir Borg lét sér alla tíð ákaflega annt um minningarsjóðinn, sem og minningu þess fólks sem hann tengdist. Geir var mjög náinn Önnu, systur sinni, og mági sínum, Poul Reumert, enda bjó hann á heimili þeirra þau ár sem hann var við nám í Kaupmannahöfn. Orð hans í ræðukaflanum, sem er birtur hér, bera góðum hug hans til þeirra fagurt vitni. Hann sýndi ræktarsemina einnig í verki gagnvart sjóðnum. Fullyrða má að sjóðurinn væri ekki það sem hann er í dag, hefði maður á borð við Geir, óeigingjarn og hagsýnn, með mikla reynslu og þekkingu á sviði rekstrar og fjármála, og djúpan skilning á ætlunarverki sjóðsins, ekki setið þar við stýrið á tímum fjárhagslegrar óvissu og umróts. En yfir þann kafla í sögu sjóðsins kýs hann eðlilega að hlaupa, þegar hann mælir fyrir styrkveitingunni við athöfn þá sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu sumarið 2000.

     Við gefum Geir Borg orðið:

     „Saga sjóðsins er löng. Hún á rætur að rekja til sumarsins 1938 þegar hjónin Anna Borg og Poul Reumert komu hingað frá Danmörku í boði Norræna félagsins og tóku sem gestir þátt í fjölmörgum leiksýningum, sem haldnar voru í Iðnó og ávallt fyrir fullu húsi. Þegar þeim lauk, lögðu þau leið sína í Landsbanka Íslands og lögðu þar heildarlaun sín inn á sparisjóðsbók sem merkt var Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur. Þessa bók afhentu hjónin mér til varðveislu þar til frekari ráðstafanir yrðu gerðar.

     Næsta ár skall á heimsstyrjöldin síðari, sem senn rauf allt samband milli landanna tveggja og stóð það ástand í 5 ár. Síðan liðu ár og dagar – í breyttum heimi án þess nokkuð markvert gerðist í sjóðsmálinu, því er það eðlilegt að nýjar kynslóðir spyrji. Hvaða manneskjur voru þetta og hvernig myndaðist þessi minningarsjóður? Þessu vil ég reyna að svara í sem stystu máli og byrja á persónunum, sem skipa öndvegi.

     Anna Borg hóf nám við leiklistarskóla konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1925, en þangað hafði hún farið til þess að hlynna að móður sinni, sem lá helsjúk í sjúkrahúsi þar í borg. Það var síðasta afrek móður Önnu að fá inngöngu fyrir hana í umsóttum skólanum.

     Þetta var tveggja ára skóli og að þeim árum liðnum tók hún burtfararpróf þaðan og meðal prófverkefna hennar var hlutverk Höllu í fjórða þætti Fjalla Eyvinds, en mótleikari hennar var Haraldur Björnsson, sem einnig þreytti þaðan lokapróf á sama tíma.

     Nú hélt Anna að næst lægi fyrir að fara heim og leita sér vinnu, en þá tóku aðrir í taumana. Hún fékk boð um að finna að máli leikhússtjóra Konunglega leikhússins í skrifstofu hans og tilefnið reyndist vera, að hann bauð henni ókeypis eitt viðbótar námsár við skólann. Hún skyldi fá mánaðarlegar greiðslur til þess að létta henni dvalarkostnað í borginni, en að þessu ári liðnu, yrði henni boðinn fastur samningur við leikhúsið. Hún tók þessu boði fegins hendi – og allt gekk eftir, og að ári liðnu gerðist hún fastráðin leikkona Konunglega leikhússins.

     Hún fékk strax hlutverk, að vísu ekki stór, en að því kom að henni var falið að leika hlutverk Margrétar í Faust eftir Goethe. Daginn eftir frumsýninguna stóð með stórum stöfum þvert yfir forsíðu Politiken: En stjerne er födt – og þar með komst hún í fremstu röð leikkvenna í Danmörku. Nokkru síðar lék hún Anne Boleyn í leikhúsinu Cant eftir danska stórskáldið Kaj Munk við miklar vinsældir og fór svo bráðlega að takast á við Ibsen og Strindberg. Henni voru veitt ýmis heiðursmerki og verðlaun, en vænst þótti henni um stórriddarakross Fálkaorðunnar íslensku og verðlaun frá Tagea Brandts Legat, sem veitt voru fyrir að vera sú leikkona – á dönskum leikhúsum, sem fegurst töluðu dönskuna.

     Poul Reumert var enn um langt tímabil fremsti leikari Dana. Hann lék um það bil 600 hlutverk í heimalandinu auk frábærra upplestra á heilum leikritum, en eftir einn slíkan í Svíþjóð skrifaði virtur gagnrýnandi þar, að hann héldi að ef Reumert tæki sig til og læsi upphátt símabók Stokkhólmsborgar myndi hann blása lífi í hvern símnotanda. Hróður hans fór víða því auk Norðurlandanna tengdist hann náið Frakklandi, þar sem vagga leiklistarinnar stóð. Frönsku talaði hann betur en Frakkarnir, eða það sögðu þeir innfæddu og í París vann hann það afrek að verða fyrstur erlendra listamanna að leika á sviði La Comedie Francaise, en í reglugerð þessa leikhúss Frakka hafði stofnandi þess – Napoleon mikli – lagt blátt bann við því að nokkur erlendur listamaður fengi að leika á fjölum þess. Sú regla stóð óhögguð fram til ársins 1925 að stjórn leikhússins réð Poul Reumert til þess að leika titilhlutverkið í einu fremsta leikriti Molieres – Tartuffe. Mörgum árum síðar var sendur leikhópur til Danmerkur þeirra erinda að leika þetta sama leikrit inn á segulband og skyldi það síðan geymt í Sorbonne háskóla með áletrun að svona skyldi Moliere leikinn. Leikhópurinn var sendur með upptökumönnum til Danmerkur, því þar bjó maðurinn, sem skyldi leika titilhlutverkið.

     Poul Reumert var sæmdur fjölda heiðursmerkja og þar á meðal var stórkrossi íslensku Fálkaorðunnar.

     Nú varðandi minningarsjóðinn, þá er það að segja, að þrátt fyrir árin sem liðu aðgerðarlaus höfðu hjónin engu gleymt. Þau höfðu þá hugsjón að stofna sjóð, sem hefði það markmið að gera hæfileikaríkum íslenskum leikurum kleift að kynnast erlendri leiklist. Um þetta höfðu þau ýmsar bollaleggingar, en þá kom reiðarslagið þegar íslensk flugvél á leið til Íslands fórst á páskasunnudag 1963 í millilendingu við Osló. Allir innanborðs létu lífið – og þar á meðal var Anna Borg.

     Í flestum tilvikum hefði þetta endanlega stöðvað allar sjóðsmyndanir, en Reumert hafði ekki gleymt óskum konu sinnar og skömmu eftir slysið settist hann niður og skrifaði bók um Önnu Borg. Ritlaunin urðu viðbót við sparisjóðsbókina frá 1938. Þessi bók kom síðar út hér heima á íslensku í þýðingu Árna Guðnasonar magisters og ritlaun Reumerts fóru sömu leiðina og hin fyrri. Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur var formlega stofnaður árið 1965. Verndari sjóðsins var þáverandi forseti Íslands herra Ásgeir Ásgeirsson. Sjóðurinn ber nafn móður minnar en hún var ein af stofnendum L.R. og aðalleikkona landsins í ein 27 ár. Hún dó 49 ára gömul. Um hana segir skáldið Þorsteinn Erlingsson: „Leiklistin á Íslandi er landnám Stefaníu“, en Einar H. Kvaran mælti að henni látinni: „Hún var morgunroðinn. Hún var vorið.“

     Fyrstu sjóðsstjórn skipuðu að beiðni Poul Reumerts: Þorsteinn Ö. Stephensen, leikari – formaður, Agnar Klemens Jónsson, sendiherra – ritari og Torfi Hjartarson, tollstjóri – gjaldkeri.

     Fyrsta úthlutun var veitt 1970 og hana hlaut Helga Bachmann.“

     Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Kjartan Borg, formaður, Þorsteinn Gunnarsson, ritari, Hjörtur Torfason, gjaldkeri, Sunna Borg og Stefanía Borg meðstjórnendur.

 

Ljósmynd: ©MOTIV / Jón Svavarsson

Styrkveiting árið 2000: Frá vinstri: Davíð Scheving Thorsteinsson, Stefanía Borg Thorsteinsson, Geir Borg,
Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason, Þorsteinn Gunnarsson og Hjörtur Torfason.