2006


Gunnar Eyjólfsson


     Gunnar Eyjólfsson stundaði fyrst nám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og síðar við Royal Academy of Dramatic Art í Lundúnum á árunum 1945-47. Eftir heimkomuna lék hann bæði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu, auk þess sem hann rak um skeið ferðaleikhópinn Sex í bíl ásamt nokkrum öðrum ungum leikurum. Gunnar hefur verið fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið frá árinu 1961 og leikið þar fjölmörg burðarhlutverk, þar á meðal titilhlutverkin í Pétri Gaut Ibsens, Hamlet Shakespeares, Fást Goethes, Ödípus konungi Sófóklesar og Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar.  Meðal annarra burðarhlutverka eru Jimmy Porter í Horfðu reiður um öxl Osbornes, Stokkmann læknir í Þjóðníðingi Ibsens, Prosperó í Ofviðri Shakespeares, Jagó í Óþelló sama skálds, Brynjólfur biskup í Skálholti Guðmundar Kambans, Willy Loman í Sölumaður deyr eftir Arthur Miller og Jónatan í Hart í bak Jökuls Jakobssonar. Í tilefni af 75 ára afmæli sínu flutti Gunnar afmæliseinleikinn Uppgjör við Pétur Gaut á stóra sviði Þjóðleikhússins. Hann starfaði einnig sem leikstjóri um árabil og hefur leikið stór hlutverk í kvikmyndum, svo sem 79 af stöðinni, Atómstöðinni og Hafinu.