Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur



Styrkveiting 2017-2018
Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólina Þorsteinsdóttir eru styrkþegar 2017-2018
Þetta er í 26. skipti sem afhending fer fram og nú eru styrkþegar 50 talsins.

Minningasjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur var stofnaður árið 1938 af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert. Var sjóðurinn stofnaður til að efla íslenska leiklist og heiðra um leið minningu Stefaníu Guðmundsdóttur, móður Önnu Borg. Stefanía (1876-1926) var einn af merkustu brautryðjendum leiklistar á Íslandi og almennt talin fremsti leikari þjóðarinnar um sína daga.

Sjóðurinn var í upphafi stofnaður fyrir tekjur af gestaleikjum þeirra hjóna í Reykjavík vorið 1938. Poul Reumert (1883-1968) var einn dáðasti leikari Dana á þessum árum. Þau Anna Borg (1903-1963) gengu í hjónaband árið 1932. Létu þau bæði sér jafnan annt um velferð íslenskrar leiklistar og léku nokkrum sinnum gestaleik á Íslandi, saman eða sitt í hvoru lagi.

Styrkveiting úr sjóðnum hefur í senn verið viðurkenning á góðum árangri styrkþega og ferðastyrkur. Hafa styrkirnir verið veittir frá árinu 1970 og hafa fjölmargir af fremstu leikurum okkar og leiklistarmönnum hlotið styrk á þeim tíma, alls 50. Árið 2006 voru liðin 130 ár frá fæðingu Stefaníu. Ákvað sjóðsstjórnin þá að láta gera sérstakan viðurkenningargrip, Stefaníustjakann, og var öllum fyrri styrkþegum afhentur stjakinn, sem er hannaður af Þorsteini Gunnarssyni leikara og arkitekt. Stjakanum hefur fylgt eintak af ævisögu frú Stefaníu, Leyndarmál frú Stefaníu eftir Jón Viðar Jónsson en sú bók er ekki lengur fáanleg.

Sjá styrkveitingu sjóðsins 2017-2018