Styrkveiting sjóðsins 2012



Dívurnar þrjár. Guðrún S. Gísladóttir, Selma Björnsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir
taka við Stefaníustjakanum í Iðnó þ. 19. nóvember, 2012.
Þetta er í 21. skipti sem afhending fer fram og nú eru styrkþegar 40 talsins.

Þann 19. nóvember 2012 fór fram i Iðnó hin árleg afhending styrkja úr minningarsjóðnum og voru margir góðir gestir viðstaddir afhendinguna.

Kjartan Borg, formaður sjóðsins bauð gesti velkomna.

Davíð Sch. Thorsteinsson minntist aldarafmælis Geirs Borg, yngsta sonar frú Stefaníu. Hann lýsti Geir Borg sem margskiptum manni, þriggja manna efni, eins og Haraldur harðráði sagði um Gissur Ísleifsson.

Í fyrsta lagi var það tónlistarmaðurinn, öðru lagi heimsborgarinn og diplómatinn og í þriðja lagi athafnamaðurinn.

Hann sagði einnig að Geir hefði verið hæfileikaríkur íþróttamaður með gott boltaauga og jafnvægi, eins og sagt er á íþróttamáli.

Sem barn dvaldi Geir nokkur sumur í Fljótshlíðinni, sem var án efa honum kærasti blettur á Íslandi. Davíð lýsti því þegar hann sat stutta stund hjá Geir fárveikum, örfáum dögum fyrir andlátið, og fór Geir þá blaðalaust með Gunnarshólma, svo snilldarlega að aldrei gleymist.

Davíð lauk spjalli sínu með því að tala aðeins um Minningarsjóð Frú Stefaníu :

„Ég þekki nokkuð til sjóðsins, því ég naut þess heiðurs í allmörg ár að vera staðgengill Agnars Klemens Jónssonar sendiherra og sitja fundi stjórnarinnar á heimili Geirs sem ritari með þjóðsagnapersónunum Þorsteini Ö., Torfa Hjartarsyni og listrænum ráðgjafa sjóðsins, Þorsteini Gunnarssyni.

Því tel ég mig geta fullyrt að sjóðurinn væri ekki til í þeirri mynd og af þeirri stærð, sem hann er, ef Geir Borg hefði ekki staðið sem klettur í hafinu gegnum þykkt og þunnt áratugum saman sem :

Verndari sjóðsinns, bakhjarl sjóðsins og velgjörðarmaður sjóðsins, sem margoft styrkti sjóðinn ótæpilega.

Að lokum langar mig að vekja athygli á að viðbrögð stjórnar sjóðsins, undir forystu formannsins, Kjartans Borg, við hruninu 2008 voru með slíkum ágætum að sjóðurinn efldist við hrunið og ber að þakka slíka frammistöðu og hafa í hávegum.“

Í framhaldi af þessu spjalli flutti, eitt af „Stefaníubörnunum“, Arnar Jónsson leikari, Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson, smákvæði, eins og Jónas sjálfur kallaði það.

Því næst hófst hin árlega úthlutun styrkja úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur.

Þorsteinn Gunnarsson annaðist þá athöfn og grípum við hér niður í kafla úr ræðu hans :

„Stjórn sjóðsins ákvað fyrir skemmstu að veita að þessu sinni þrjá styrki, hvern að upphæð kr. 750.000 og skyldu þeir veittir þremur konum, tveimur leikkonum og einum leikstjóra, enda væri það í anda þeirra hugsjóna, sem lá að baki stofnun sjóðsins. og stjórnin hefði starfað eftir undir forystu Geirs heitins Borg, sonar frú Stefaníu, sem minnst var hér fyrr.

Guðrún Snæfríður Gísladóttir hefur um langt árabil verið í framvarðarsveit íslenskra leikkvenna. Þrívegis hef ég átt því láni að fagna að leika á móti Guðrúnu þar sem reynt hefur á náinn samleik, í Sumargestum Gorkis, Sölku-Völku og Dauðanum og stúlkunni og ævinlega fundið fyrir sönnum tilfinningum, fullkominni einbeitingu og sjaldæfum ástríðuhita, þar sem ekki er sóst eftir áhrium áhrifanna vegna heldur leikurinn byggður á traustum vitsmunalegum grunni. Hún kann þá list örðum betur að láta hugsanirnar geysast milli skauta og afhjúpa leynda kima mannssálarinnar. Og svo á hún það líka til að koma okkur algjörlega á óvart, eins og með konu Arnæusar fyrir skemmstu, skopmynd sem byggð var á harmrænum grunni, svo að úr varð grátbroslegur leikur, eins og hann gerist bestur.

Þegar ég virði fyrir mér refilsaumað altarisklæði, heklaða brún á dúk, vandaðan Feneyjasaum, Harðangurssaum eða klaustursaum verð ég stundum dolfallinn. En því nefni ég þetta, að sjái ég vel unna leiksýningu, þar sem allir þættir falla saman í eina heild og galdurinn gerist þykir mér sem henni megi líkja við eina töfrandi voð sem ofin er í þrívíðu rými. Hvað sem um þetta má segja, er það mál manna að með sýningu sinni á Vesalingunum hafi Selma Björnsdóttir unnið afreksverk, sem varpaði sjaldgæfum töfraljóma á svið Þjóðleikhússins, leitt saman leik, söng, hreyfingar og mynd af mikilli hind, þar sem stöðluðum lausnum var hafnað en söguþráður og mennska sett í öndvegi. Sýningar sem þessar eru staðfesting á lögmáli leikhússins um að leikrænn sannleikur sviðsins er sjálfum raunveruleikanum æðri.

Það er alkunna að leikarinn miðar ekki að því í list sinni að „vera eðlilegur“ eins og sagt er, heldur vera í raun og sann, samsama sig leikpersónunni og lyndiseinkunn hennar, grafast eftir því í eigin eðli sem samræmist sálarlífi, tilfinningum og athöfnum hennar. Slíkan leik hefur Unnur Ösp Stefánsdóttir sýnt í Elsku barni og Eldhafi, í senn nístandi og sáran, og þegar hlotið verðskuldaða viðurkenningu fyrir. Ég get samt ekki staðist þá freistingu að bæta við örlitlu frá eigin brjósti: Í hreyfilist og fimleikum, sem ráða ríkjum í sýningu Vesturports á Fást, gefst ekki mikið tóm fyrir þögn eða djúphygli. En einu sinni fær þó aldraður leikari, sem gistir elliheimilið, að horfast í augu við Unni Ösp og upplifa í sjónhendingu skýra hugsun, nákvæmni og einlæga tilfinningu og þessi undursamlegi tærleiki trúi ég berist ekki bara til mótleikarans, heldur yfir sviðsbrúnina og út í sal

Poul Reumert hafði það eftir ónefndum Íslendingum árið 1929 að frú Stefanía hefði verið „guddommelig“. En hvað skyldi það merkja að vera guðdómlegur? Hinn nafnkunni leikari Konrad Nielsen, sem reyndar var dulnefni Sams Besekow, er leikstýrði Reumert margsinnis í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn, hefur svarið á reiðum höndum: Hinir guðdómlegu eru dýrlingar listarinnar hér á jörðinni, hvorki meira né minna.“

Að því sögðu bað Þorsteinn þessar þrjár „guðdómlegu“ konur að koma til sín í þeirri röð, sem hann ávarpaði þær og taka við styrknum og Stefaníustjakanum úr hendi Sunnu Borg leikkonu og barnabarns frú Stefaníu.

Guðrún S. Gísladóttir þakkaði fyrir sig á eftirminnanlegan hátt þegar hún hóf ræðu sína með því að flytja ljóðið Leiksýning eftir Stein Steinarr.
Hún sagði styrkinn veita sér kærkomið tækifæri til að kynna sér leiklist erlendis og að svona viðurkenning væri ómetanleg fyrir sig, trúlega meira virði nú í dag en fyrir tveim til þrem áratugum síðan, þegar „manni fannst sjálfsagt að fá hrós.“