Styrkþegar leikárið 2016-2017



Við styrkveitingu 2016-2017

Hinn 9. júní 2017 fór fram afhending viðurkenninga úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur.

Athöfnin var haldin í Stóra sal Iðnó við Tjörnina að viðstöddum fjölda gesta. Boðið var upp á létt vín og snittur við undirleik pianóleikara.

Geir Borg nýr formaður sjóðsins bauð gesti velkomna og fór yfir sögu og markmið Stefaníusjóðs. Að lokinni tölu sýndi hann einstakt myndbrot með leyfi Kvikmyndasafns Íslands úr kvikmyndinni Sögu Borgaraættarinnar sem frumsýnd var árið 1920, byggð a samnefndri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar en þar lék Frú Stefanía Guðmundsdóttir eitt hlutverka.

Hann bauð því næst Mörtu Nordal ritara sjóðsins að stíga á svið og afhenda væntanlegum styrkþegum Stefaníustjakann og styrkina.

Þeir listamenn sem hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni eru leikaranir Árni Pétur Guðjónsson og Björn Thors fyrir framúrskarandi framlag sitt á sviði leiklistar.

Aðalbjörg Árnadóttir dóttir Árna Péturs tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd föður síns sem staddur var úti á landi og flutti stutta tölu fyrir hans hönd þar sem hann þakkaði kærlega fyrir þennan óvænta heiður.

Björn Thors hélt einnig þakkarræðu og var djúpt snortinn yfir þessari mikilvægu viðurkenningu. 

Stjórn Stefaníusjóðs óskar Árna Pétri og Birni innilega til hamingju með þessa viðurkenningu og er það von sjóðsins að þetta verði þeim innblástur til frekari afreka á leiksviðinu.