Styrkþegar og ljósberar 2015



Styrkþegar 2015
Ólafur Egill Egilsson, Marta Nordal og Edda Björg Eyjólfsdóttir, styrkþegar 2015
Þetta er í 24. skipti sem afhending fer fram og nú eru styrkþegar 46 talsins.

Hinn 16. nóvember 2015 fór fram árleg afhending styrkja og stjaka úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur.

Athöfnin fór fram við hátíðlega athöfn á 50 ára afmæli sjóðsins í Stóra sal Iðnó við Tjörnina að viðstöddum fjölda gesta og var stemmningin mjög góð. Boðið var upp á létt vín og snittur.

Formaður sjóðsis bauð gesti velkomna,

Geir Borg, gjaldkeri sjóðsins, tók saman dagskrá þar sem viðstaddir fengu að heyra brot úr ræðu Þorsteins Ö, Stephensen leikara, sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1965 þegar sjóðurinn var stofnaður.
Einnig sýndi hann atriði úr sjónvarpsdagskrá frá Eddunni árið 2003 þar sem Anna Borg leikkona, dóttir frú Stefaníu, var heiðruð sérstaklega, en hún fórst í flugslysi við Fornebu flugvöllinn í Osló árið 1963.
Að lokum sýndi hann brot úr leikriti þar sem Anna Borg og Poul Reumert léku saman, upptaka frá árinu 1945.

Frú Vigdís Finnbogasdóttir sá um að afhenda styrkina og Stefaníusstjakann.

Þeir listamenn sem hlutu styrki úr sjóðnum að þessu sinni eru þau Edda Björg Eyjólfsdóttir, Marta Nordal, og Ólafur Egill Egilsson og hlutu þau hvert kr. 750 þ. í sinn hlut.

Þau Edda Björg, Marta og Ólafur voru öll þakklát og hrærð yfir viðurkenningum sínum.

Öll voru þau sammála um að þessum fjármunum yrði varið í að kynna sér leiklist erlendis og efla sig sem listamenn.

Ólafur sagðist vera óskaplega upp með sér og þakklátur fyrir þessa viðurkenning og sagðist trúlega verja styrknum á þann hátt að lengja í fyrirfram skipulagðri leikhúsferð til London með fjölskyldunni í desember nk. Markmiðið væri að sjá a.m.k. eina sýningu á dag.

Edda Björg þakkaði fyrir sig og sagðist vera djúpt snortin og þakklát fyrir þennan mikla heiður

Marta sagði að þessi viðurkenning væri staðfesting á því að það væri tekið eftir því sem maður væri að gera og að það skipti máli.
“Það yljar manni um hjartarætur að fylgja í fótspor þeirra flottu listamanna sem þegar hafa hlotið þessa viðurkenningu og vera hluti af þeirri hefð sem komin er frá frú Stefaníu, þessari flottu konu.
Mér þykir mjög vænt um þessa viðurkenningu og er mjög upp með mér, því ég átti ekki von á þessu”.
Hún tók fram að viðurkenningin væri mikil í ljósi þess að vitað væri að stjórnin veldi styrkþegana af mikilli kostgæfni.


Styrkþegar 2015 ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur og stjórn sjóðsins.
(f.v.) Vigdís Finnbogadottir, Þorsteinn Gunnarsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Sunna Borg, Geir Borg, Marta Nordal, Ólafur Egill Egilsson og Stefanía Borg.