2015


Marta Nordal


Marta Nordal leikstjóri útskrifaðist sem leikkona frá The Bristol Old Vic Theatre School árið 1995. Hún hefur leikið hjá Leikfélagi Akureyrar, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Meðal helstu hlutverka má nefna Diljá í Vefaranum frá Kasmír hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1996, Árdís í Hart í bak hjá LA árið 1997, Horft frá brúnni (LR), annað aðalhutverka í Bláa herberginu (LR), Dísa í Bláa hnettinum (Þjóðleikhúsið), Vatn Lífsins (Þjóðleikhúsið), Halla í Segðu mér allt (LR), Chicago (LR), Mercedes í Carmen (LR), Gréta í Mein Kampf (LR) og Bíbi í farsanum Viltu finna milljón (LR). Marta hefur einnig leikið útvarpi og sjónvarpi og með sjálfstæðum leikhópum.

Marta leikstýrði fyrst hjá áhugaleikfélaginu Hallvarði Súganda árið 2000 farsanum; Með vífið í lúkunum, einnig var hún annar leikstjóra hjá Stúdentaleikhúsinu árið 2005. Dansverk Mörtu hreppti fyrsta sæti í dansleikhúskeppni LR og ÍD árið 2006 og í kjölfarið samdi hún ásamt dansaranum Peter Anderson dansleikhúsverkið Þvílík gleði sem var samstarfsverkefni LR og ÍD og var það frumsýnt vorið 2007. Marta leikstýrði leikritinu Fýsn sem frumsýnt var hjá Borgarleikhúsinu árið 2008.

Marta hefur einnig leikstýrt útvarpsverkunum Fjalla Eyvindi eftir Jóhann Sigurjónsson, Í gömlu húsi eftir Hávar Sigurjónsson (2012), Páfuglar heimskautanna eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur (2013) og Sek eftir Hrafnhildi Hagalín (2015).

Árið 2010 stofnaði Marta ásamt Eddu Björgu Eyjólfsdóttur leikkonu leikhópinn Aldrei óstelandi. Fyrsta frumsýning leikhópsins var leikritið Fjalla Eyvindur er sýnt var í Norðurpólnum en sú sýning var tilnefnd sem sýning ársins á Grímunni 2011. Önnur sýning hópsins Sjöundá var byggð á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og var frumsýnd í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2012. Árið 2014 frumsýndi Aldrei óstelandi leikritið Lúkas eftir Guðmund Steinsson í Kassanum í Þjóðleikhúsinu og var hún tilnefnd til 6 Grímuverðlauna árið 2014. Næsta verkefni í samstarfi við Þjóðleikhúsið var sýningin Ofsi eftir sögu Einars Kárasonar og hlaut hún einnig 6 tilnefningar til Grímunnar. Marta fékk menningarverðlaun DV árið 2015 fyrir leikstjórn á Ofsa. Hún hefur leikstýrt öllum sýningum hópsins.

Marta er einnig forseti Sviðslistasambands Íslands og hefur kennt á sviðshöfundabraut LHÍ.