1971



Ljósmynd: Halldóra Sigríður

Arnar Jónsson


     Arnar Jónsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964. Hann hefur leikið fjölda hlutverka á flestum leiksviðum landsins, auk þess sem hann hefur leikið mikið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Af stórum hlutverkum frá fyrstu árum hans má nefna hermanninn unga í Gísl Brendans Behan í Þjóðleikhúsinu, Fandó í Fandó og Lis eftir Arrabal hjá Grímu, Arlekínó í Tveggja þjóni Goldonis og Artúr í Tangó Mrozeks hjá Leikfélagi Reykjavíkur.  Þá starfaði hann með leikhópnum Leiksmiðjunni, þar sem hann fór með titilhlutverkið í Galdra-Lofti.  Hann hefur einnig oft leikið með Leikfélagi Akureyrar.  Arnar var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins árið 1975 og lék þar meðal annars hlutverk Þorleifs Kortssonar í Skollaleik Böðvars Guðmundssonar og titilhlutverkið í Don Kíkóta eftir James Saunders. Meðal stórra hlutverka hans í Þjóðleikhúsinu eru Jói í Syni skóarans og dóttur bakarans eftir Jökul Jakobsson, James Tyrone yngri í Dagleiðinni löngu inn í nótt eftir O´Neill, Platonof í Villihunangi Tsjekhovs, Pétur í Bílaverkstæði Badda Ólafs Hauks Símonarsonar, Pétur Gautur eldri í Pétri Gaut Ibsens, Harry Hyman í Glerbrotum Millers, titilhlutverkið í Abel Snorko býr einn eftir Eric-Emmanuel-Schmitt, Þeseifur konungur í Fedru Racines, Bjartur í Sumarhúsum (eldri) í Sjálfstæðu fólki, Kreon konungur í Antígónu Sófóklesar og Helge í Veislunni eftir Tomas Vinterberg og Mogens Rukov. Þá lék hann á sviði Loftkastalans einleikinn Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson sem samdi verkið með Arnar í huga.